Kerling í krapi

VÁ! Enn og aftur hef ég loggast inn á þessa síðu. Það var ekki fyrir töfra í þetta skiptið. Ég var búin að gleyma hinu ótrúlega flókna lykilorði en fékk blog.is til að senda mér áminningu í tölvupósti. Næs af þeim að nenna því. Nú sit ég hér í sófa úti í sveit í Englandi, nánar tiltekið Exeter, og bíð eftir að kærastinn minn (já kærastinn minn) rétti mér það sem hann er að elda handa mér svo ég geti borðað það og komið svo syni okkar (já syni okkar) í háttinn.

Ég býst ekki við þær fáu hræður* sem enn slæðist hingað inn þurfi á einhverju allsherjar uppdeiti að halda um líf mitt og liðan síðan síðast. Ég læt samt nokkur atriði flakka sem nauðsynlegt er að vita fyrir nýja aðdáendur, til að þeir tapi ekki áttum og þráðum. (Reyndar á ég bara tvo raunverulega aðdáendur, Evu Björk og Gunna, og þau vita nú þegar allt, en ég lifi í voninni að fleiri bætist í hópinn).

Atriði númer eitt sem nauðsynlegt er að vita áður en lengra er haldið:
Ég er þrítug núna. Ekki 27 eins og segir þarna til vinstri.

Atriði númer tvö sem nauðsynlegt er að vita áður en lengra er haldið:
Nú hef ég gengið með barn og fætt. Það var ótrúleg lífsreynsla og breytti mér mikið. Ég er ekki söm.

Eins og ég sagði áðan er ég stödd í Bretlandi í augnablikinu. Eftir mánuð fer ég til Finnlands í þrjár vikur, svo Akureyrar í tvær vikur og svo Slóveníu í eina viku. Þá fer ég aftur til Bretlands og svo til Svíþjóðar um jólin. Það er óþarfi að taka fram að ég er stanslaust snusandi af lavender ilmkjarnaolíu til að róa taugarnar.

Ég ætla að reyna að birta nokkrar myndir með þessu. Þær eiga áreiðanlega ekki eftir að birtast í réttri röð og þetta á áreiðanlega eftir að ganga mjög illa, svo ég segi bara af hverju myndirnar eru og vonast til að þið fattið hvað á við hverja:
- ein er af Benjamín í eldhúsglugganum í sveitinni í Englandi.
- Ein er af okkur að hjóla saman í Hollandi. Honum fannst æðislegt að hjóla og mér finnst það líka
- Ein er af þreyttum foreldrum í lest á leiðinni frá London til Exeter
- og ein er af Benjamín á fyrirlestri í Hollandi á dögunum.

Og svo má ég til með að óska minni kæru vinkonu Möggu til hamingju með afmælið. Hún er 30 ára í dag. Ég held ég semji þulu af því tilefni:

Magga mín þrítug
ekki lengur tvítug
kemurðu að róla
er á þér bóla?
Sá ég í dag ungling
hann var með vindling.
Hvers á ég að gjalda
segir hún Skjalda.
Vertu mér ei erfið
brjótum upp kerfið.
Komdu' í heimsókn glófi
hér er svefnsófi ***

*Uppgerðar hógværð. Ég verð fyrir miklum vonbrigðum ef ég kemst að því að fólk fari ekki hingað inn í þessa internetkompu og athugi með mig að minnsta kosti einu sinni í viku. Svo hyggst ég líka auglýsa þessa færslu á facebook þar sem ég hangi oft undir nafni framandverkaflokksins sem ég tilheyri; Kviss búmm bang, og vonast þannig til að næla mér í fleiri aðdáendur**

**Það má heyra af linnulausu tali mínu um aðdáendur að það er ekki alveg í lagi heima hjá mér.

***Ég er með svokallaða brjósta-þoku.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Aðdáandi nr.3

Anna Gunndís (IP-tala skráð) 27.9.2012 kl. 21:00

2 identicon

Þú ert fyndin Bogga Blogg.

Snæbjörn (IP-tala skráð) 28.9.2012 kl. 01:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband