Þusandinn kom yfir mig

Nú fer þessari dvöl minni í Exeter brátt að ljúka. Það er búið að vera yndislegt að vera hér úti í sveit og þurfa á hverjum degi að labba á malarvegi í gegnum grænan skóg, fjarri umferðarnið og fólksmergð. Virkilega róandi og gott.

Það var tvennt sem mig langaði að minnast á. Annarsvegar mann sem ég geng framhjá tvisvar á dag á leið minni niðrí bæ. Hann er svokallaður "drifter" og situr alltaf á sama bekknum niðrí bæ og í hvert skipti sem ég labba framhjá hrósar hann mér fyrir sjal sem ég keypti mér um daginn. Þetta er rautt sjal, eiginlega meiri slá en sjal, risastórt og fer ekki framhjá neinum. Fyrsta daginn labbaði ég framhjá honum í sjalinu og hann kallaði á eftir mér eitthvað sem myndi útleggjast sem "en fallegt sjal". Ég sneri mér við og brosti. Svo labbaði ég framhjá honum aftur seinna sama dag á leiðinni heim og þá sagði hann "ennþá mjög flott". Núna er þetta orðið hálfgert grín. Alltaf þegar ég kem horfi ég í eftirvæntingu á hann og bíð og hann bregst mér ekki, segir alltaf að þetta sé mjög fínt sjal og svo hlæjum við kurteisislega og ég labba framhjá.

Samkvæmt orðabók er drifter a person who is continually moving from place to place, without any fixed home or job. S.s. heimilislaus og atvinnulaus manneskja. Flakkari. Það kann að hljóma undarlega og mamma á áreiðanlega eftir að fussa yfir því en mér finnst eitthvað rómantískt við að vera flakkari. Rótlaus manneskja með dótið sitt í poka á bakinu. Tekur lest frá einni borg til annarar og er eiginlega alltaf á stað þar sem enginn þekkir hana. Rótlaus og heimilislaus en sérkennilega frjáls (þetta er auðvitað barnaskapur, "þetta fólk" er áreiðanlega helsjúkir alkóhólistar upp til hópa sem kunna bara ekkert á lífið fyrst þau hafa ekki fest ráð sitt og keypt sér íbúð og bíl). En svona líður mér.

Svo var það blessað bakaríið sem ég er búin að minnast á á facebook síðunni og minnist á aftur hér. The Exploding Bakery. Það var stofnað fyrir einu og hálfu ári síðan af tveimur mönnum sem fannst bara ekki vera hægt að fá almennilegar kökur á kaffihúsum svo þeir stofnuðu heildsölubakarí og baka núna kökur sem þeir selja svo á kaffihús og matsölustaði víða um Bretland. Og það finnst á bragðinu af kökunum (ég sver það, ég myndi ekki ljúga einhverju svona) að þær eru bakaðir af mönnum sem langar fyrst og fremst að baka góðar kökur, ekki fyrst og fremst að græða fullt af pening á því að baka góðar kökur. Mér þykir vænt um fyrirtæki þar sem starfsfólkið og eigendurnir eru að vinna þar af því að það gefur þeim eitthvað meira en bara peninga fyrir leigunni. Hér er líka verslunarmiðstöð sem heitir John Lewis sem er rekin þannig að allir sem vinna þar eiga hlut í fyrirtækinu og það er þessvegna metnaðarmál fyrir alla sem vinna þar að allt gangi vel fyrir sig. Það finnst líka þegar maður kemur þar inn, starfsfólkinu er annt um að staðurinn líti vel út að viðskiptavininum líði vel þarna inni. Svona finnst mér að heimurinn ætti að vera. Mér er meinilla við fyrirtæki eins og t.d. N1 þar sem starfsfólkið græðir ekkert á því þegar það er mikið að gera. Það er bara stress og vesen fyrir það og skilar sér í engu til þeirra, bara meiri gróða fyrir eigendurna sem eyða dögunum sínum í eitthvað allt annað en að hlúa að þessum stöðum og fólkinu sem vinnur þar.

Jæja, þá er ég farin að þusa yfir þessu enn eina ferðina. Ég á eftir að þusa yfir þessu allt mitt líf, það er eins gott að venjast því bara strax. N1 er langt frá því að vera eina eða versta dæmið. Starbucks er annað dæmi um fyrirtæki sem mætti og ætti með réttu að lognast út af strax. Hér er smá wikipediu texti um hvernig þetta fyrirtæki mettar markaðinn, s.s. opnar marga staði í sömu borg, miklu fleiri en munu standa undir sér, til að hrekja smærri fyrirtæki, sem hafa ekki kapítal til að standa af sér samkeppnina, af markaðnum:

"Some of the methods Starbucks has used to expand and maintain their dominant market position, including buying out competitors' leases, intentionally operating at a loss, and clustering several locations in a small geographical area (i.e., saturating the market), have been labeled anti-competitive by critics.[126] For example, Starbucks fueled its initial expansion into the UK market with a buyout of Seattle Coffee Company, but then used its capital and influence to obtain prime locations, some of which operated at a financial loss. Critics claimed this was an unfair attempt to drive out small, independent competitors, who could not afford to pay inflated prices for premium real estate."

Best að tuða bara af alvöru fyrst ég er byrjuð: Í alvörunni? Viljum við lifa í svona heimi? Er ekki í lagi með þetta lið? Hvaða gildi eru hér í fyrirrúmi? Drengskapur? Nei. Bróðerni? Nei. Riddaramennska? Nei. Virðing? Nei. Kurteisi? Nei. Náungakærleikur? Neihei. Hvað er AÐ okkur (já okkur, ég fékk mér kaffi og möffins á svona stað bara fyrir nokkrum dögum af því að uppáhaldsstaðurinn minn var lokaður og þessi var bara hinummeginn við götuna) að versla við þessar staurblindu geimverur? (ókei nú tuðaði ég yfir mig, ég veit ekkert hvað meina með staurblindum geimverum, en samt meina ég það eitthvað svo innilega. Best að hætta núna).

London í kvöld. Helsinki í fyrramálið. Lavenderdroparnir á vísum stað og mín bara spennt að leggja af stað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott hjá þér Vilborg.Mjög svo sammála, nema með barnið í bakpokanum.

bj (IP-tala skráð) 19.10.2012 kl. 19:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband