Myndir frá Helsinki

Ég týndi myndavélinni minni á einhverju kaffihúsi í Helsinki.

Einhver sagði mér að Finnar væru svo heiðarlegir að ef eitthvað týndist myndi það áreiðanlega koma aftur í leitirnar. Það er reyndar alveg í takti við mína reynslu, ég týndi teppinu hans Benjamíns á veitingastað og skiptipokanum hans gleymdi ég í rútu. Það skilaði sér. En myndavélin var ómerkt og ekkert líklegt að hún rati til mín af sjálfsdáðum og ég man ekki nákvæmlega hvar hún hvarf úr vasanum mínum. Mér er ekki svo sárt um gripinn sjálfann, þetta var ekkert sérstök myndavél, en myndirnar sem ég tók í Helsinki eru núna glataðar og það þykir mér miður. Kannski ég lýsi því bara sem ég tók myndir af, þannig festist það í minninu, kannski ekki með eins nákvæmum hætti og ef ljósmyndirnar hefðu varðveist, en einhvernveginn þó.

Benjamín í fyrsta snjónum. Hann í kerrunni, dúðaður og undir tveimur teppum svo rétt sást glitta í nefið á honum, við hliðina á bíl sem var allur í snjó.

Benjamín, ég, Ísak, Maja amma og afi Palli niðri við sjó. Reyndar eru til myndir af þessu á öðrum myndavélum held ég. Ísak á áreiðanlega einhverjar svona á símanum sínum.

Benjamín og Maja amma á kaffihúsi niðri við sjó.

Ég og Ísak í rómantískum göngutúr við stjörnuskoðunarturn rétt hjá höfninni.

Ég, Ísak og Benjamín á Kaffi Success að gæða okkur á kaffi og sætabrauði.

Benjamín á Kapteeninkatu (Kapteinsgötunni) á sunnudegi með marga finnska fána dregna í hún í bakgrunninum.

Svo voru nú einhver fleiri, áreiðanlega ódauðleg augnablik og skemmtilegar myndir af elsku litla snúðnum sem stækkar svo hratt, en kannski er gott að ég muni ekki eftir þeim - þá voru þær kannski ekki svoooo merkilegar.

En þær voru nú fleiri samt. Myndir af Benjamín og pabba hans að labba um götur Helsinki. Myndir af þeim tveimur fyrir utan hvítu kirkjuna og inní henni. Aha, hún er þar, myndavélin... eða nei, ég tók myndir af okkur á Nepölskum veitingastað seinna sama dag. Ég held ég viti núna hvar hún er, hún er á kaffi Úrsúlu, átthyrningi úr gleri þar sem hægt er að fá dýrindis salat, kaffi með og allskonar sætabrauð fyrir ekki svo margar júrur. Kannski ég biðji eina finnska vinkonu um að tékka hvort hún sé þar, ef ekki þá kannski finn ég hana næst þegar ég kem til Helsinki, - í júní á næsta ári. Annað eins hefur nú gerst.

Jæja... skrítið að blogga. Til hvers ætli ég sé að standa í þessu? Ég grínaðist ekkert.


Þusandinn kom yfir mig

Nú fer þessari dvöl minni í Exeter brátt að ljúka. Það er búið að vera yndislegt að vera hér úti í sveit og þurfa á hverjum degi að labba á malarvegi í gegnum grænan skóg, fjarri umferðarnið og fólksmergð. Virkilega róandi og gott.

Það var tvennt sem mig langaði að minnast á. Annarsvegar mann sem ég geng framhjá tvisvar á dag á leið minni niðrí bæ. Hann er svokallaður "drifter" og situr alltaf á sama bekknum niðrí bæ og í hvert skipti sem ég labba framhjá hrósar hann mér fyrir sjal sem ég keypti mér um daginn. Þetta er rautt sjal, eiginlega meiri slá en sjal, risastórt og fer ekki framhjá neinum. Fyrsta daginn labbaði ég framhjá honum í sjalinu og hann kallaði á eftir mér eitthvað sem myndi útleggjast sem "en fallegt sjal". Ég sneri mér við og brosti. Svo labbaði ég framhjá honum aftur seinna sama dag á leiðinni heim og þá sagði hann "ennþá mjög flott". Núna er þetta orðið hálfgert grín. Alltaf þegar ég kem horfi ég í eftirvæntingu á hann og bíð og hann bregst mér ekki, segir alltaf að þetta sé mjög fínt sjal og svo hlæjum við kurteisislega og ég labba framhjá.

Samkvæmt orðabók er drifter a person who is continually moving from place to place, without any fixed home or job. S.s. heimilislaus og atvinnulaus manneskja. Flakkari. Það kann að hljóma undarlega og mamma á áreiðanlega eftir að fussa yfir því en mér finnst eitthvað rómantískt við að vera flakkari. Rótlaus manneskja með dótið sitt í poka á bakinu. Tekur lest frá einni borg til annarar og er eiginlega alltaf á stað þar sem enginn þekkir hana. Rótlaus og heimilislaus en sérkennilega frjáls (þetta er auðvitað barnaskapur, "þetta fólk" er áreiðanlega helsjúkir alkóhólistar upp til hópa sem kunna bara ekkert á lífið fyrst þau hafa ekki fest ráð sitt og keypt sér íbúð og bíl). En svona líður mér.

Svo var það blessað bakaríið sem ég er búin að minnast á á facebook síðunni og minnist á aftur hér. The Exploding Bakery. Það var stofnað fyrir einu og hálfu ári síðan af tveimur mönnum sem fannst bara ekki vera hægt að fá almennilegar kökur á kaffihúsum svo þeir stofnuðu heildsölubakarí og baka núna kökur sem þeir selja svo á kaffihús og matsölustaði víða um Bretland. Og það finnst á bragðinu af kökunum (ég sver það, ég myndi ekki ljúga einhverju svona) að þær eru bakaðir af mönnum sem langar fyrst og fremst að baka góðar kökur, ekki fyrst og fremst að græða fullt af pening á því að baka góðar kökur. Mér þykir vænt um fyrirtæki þar sem starfsfólkið og eigendurnir eru að vinna þar af því að það gefur þeim eitthvað meira en bara peninga fyrir leigunni. Hér er líka verslunarmiðstöð sem heitir John Lewis sem er rekin þannig að allir sem vinna þar eiga hlut í fyrirtækinu og það er þessvegna metnaðarmál fyrir alla sem vinna þar að allt gangi vel fyrir sig. Það finnst líka þegar maður kemur þar inn, starfsfólkinu er annt um að staðurinn líti vel út að viðskiptavininum líði vel þarna inni. Svona finnst mér að heimurinn ætti að vera. Mér er meinilla við fyrirtæki eins og t.d. N1 þar sem starfsfólkið græðir ekkert á því þegar það er mikið að gera. Það er bara stress og vesen fyrir það og skilar sér í engu til þeirra, bara meiri gróða fyrir eigendurna sem eyða dögunum sínum í eitthvað allt annað en að hlúa að þessum stöðum og fólkinu sem vinnur þar.

Jæja, þá er ég farin að þusa yfir þessu enn eina ferðina. Ég á eftir að þusa yfir þessu allt mitt líf, það er eins gott að venjast því bara strax. N1 er langt frá því að vera eina eða versta dæmið. Starbucks er annað dæmi um fyrirtæki sem mætti og ætti með réttu að lognast út af strax. Hér er smá wikipediu texti um hvernig þetta fyrirtæki mettar markaðinn, s.s. opnar marga staði í sömu borg, miklu fleiri en munu standa undir sér, til að hrekja smærri fyrirtæki, sem hafa ekki kapítal til að standa af sér samkeppnina, af markaðnum:

"Some of the methods Starbucks has used to expand and maintain their dominant market position, including buying out competitors' leases, intentionally operating at a loss, and clustering several locations in a small geographical area (i.e., saturating the market), have been labeled anti-competitive by critics.[126] For example, Starbucks fueled its initial expansion into the UK market with a buyout of Seattle Coffee Company, but then used its capital and influence to obtain prime locations, some of which operated at a financial loss. Critics claimed this was an unfair attempt to drive out small, independent competitors, who could not afford to pay inflated prices for premium real estate."

Best að tuða bara af alvöru fyrst ég er byrjuð: Í alvörunni? Viljum við lifa í svona heimi? Er ekki í lagi með þetta lið? Hvaða gildi eru hér í fyrirrúmi? Drengskapur? Nei. Bróðerni? Nei. Riddaramennska? Nei. Virðing? Nei. Kurteisi? Nei. Náungakærleikur? Neihei. Hvað er AÐ okkur (já okkur, ég fékk mér kaffi og möffins á svona stað bara fyrir nokkrum dögum af því að uppáhaldsstaðurinn minn var lokaður og þessi var bara hinummeginn við götuna) að versla við þessar staurblindu geimverur? (ókei nú tuðaði ég yfir mig, ég veit ekkert hvað meina með staurblindum geimverum, en samt meina ég það eitthvað svo innilega. Best að hætta núna).

London í kvöld. Helsinki í fyrramálið. Lavenderdroparnir á vísum stað og mín bara spennt að leggja af stað.


Faceborg

Ég er aftur búin að stofna facebook aðgang fyrir mig persónulega. Ég ætlaði að nota bloggsíðuna sem tæki til að birta myndir af fallega syni mínum og mér á ferðum okkar um heiminn, en það gengur ekki sem skyldi að hlaða inn myndum og vídjóum.

Ástæður þess að ég vildi hætta á facebook til að byrja með eru líka orðnar óskýrar fyrir mér. Það var eitthvað um tímasóun, en það skiptir ekki máli lengur því ég er hvort eð er alltaf á facebook undir nafni Kviss búmm bang, og svo voru það einhverjar áhyggjur um tvöfeldni eða tilgangsleysi; að vera að birta myndir af sér og frábæru lífi sínu á facebook til hvers? Eins og það sé ekki nóg fyrir mig að vita að líf mitt er frábært? og svo er það ekkert alltaf frábært, það er svona yfir það heila mjög frábært en stundum er erfitt og hvað? Á ég þá að birta myndir af því líka? Erfitt í dag: mynd. Vaknaði með blett í andlitinu: mynd. Hver hefur gaman af því?

En ástæður þess að mig langar að vera aftur með eru líka eitthvað óskýrar. Mig langar að fjölskylda mín geti fylgst með mér og Benjamín því við erum svo mikið í burtu og hann stækkar svo hratt. Svo langar mig bara að fólk sé að læka. Ætli það sé ekki aðallega það, að fólk sé að læka.

Eitt að lokum: Fyrir þá sem ekki vita er Ísak (kærastinn) hálfur útlendingur og þegar ég var ólétt þá ruglaðist hann óvart á orðunum kraftaverk og töfrabragð og talaði um litla barnið í maganum sem "litla töfrabragðið okkar". Það þótti mér fallegt.

Jæja. Farið á Facebook ef þið viljið sjá myndir af litla töfrabragðinu. Annars bara lifið heil og sjáumst.


Kerling í krapi

VÁ! Enn og aftur hef ég loggast inn á þessa síðu. Það var ekki fyrir töfra í þetta skiptið. Ég var búin að gleyma hinu ótrúlega flókna lykilorði en fékk blog.is til að senda mér áminningu í tölvupósti. Næs af þeim að nenna því. Nú sit ég hér í sófa úti í sveit í Englandi, nánar tiltekið Exeter, og bíð eftir að kærastinn minn (já kærastinn minn) rétti mér það sem hann er að elda handa mér svo ég geti borðað það og komið svo syni okkar (já syni okkar) í háttinn.

Ég býst ekki við þær fáu hræður* sem enn slæðist hingað inn þurfi á einhverju allsherjar uppdeiti að halda um líf mitt og liðan síðan síðast. Ég læt samt nokkur atriði flakka sem nauðsynlegt er að vita fyrir nýja aðdáendur, til að þeir tapi ekki áttum og þráðum. (Reyndar á ég bara tvo raunverulega aðdáendur, Evu Björk og Gunna, og þau vita nú þegar allt, en ég lifi í voninni að fleiri bætist í hópinn).

Atriði númer eitt sem nauðsynlegt er að vita áður en lengra er haldið:
Ég er þrítug núna. Ekki 27 eins og segir þarna til vinstri.

Atriði númer tvö sem nauðsynlegt er að vita áður en lengra er haldið:
Nú hef ég gengið með barn og fætt. Það var ótrúleg lífsreynsla og breytti mér mikið. Ég er ekki söm.

Eins og ég sagði áðan er ég stödd í Bretlandi í augnablikinu. Eftir mánuð fer ég til Finnlands í þrjár vikur, svo Akureyrar í tvær vikur og svo Slóveníu í eina viku. Þá fer ég aftur til Bretlands og svo til Svíþjóðar um jólin. Það er óþarfi að taka fram að ég er stanslaust snusandi af lavender ilmkjarnaolíu til að róa taugarnar.

Ég ætla að reyna að birta nokkrar myndir með þessu. Þær eiga áreiðanlega ekki eftir að birtast í réttri röð og þetta á áreiðanlega eftir að ganga mjög illa, svo ég segi bara af hverju myndirnar eru og vonast til að þið fattið hvað á við hverja:
- ein er af Benjamín í eldhúsglugganum í sveitinni í Englandi.
- Ein er af okkur að hjóla saman í Hollandi. Honum fannst æðislegt að hjóla og mér finnst það líka
- Ein er af þreyttum foreldrum í lest á leiðinni frá London til Exeter
- og ein er af Benjamín á fyrirlestri í Hollandi á dögunum.

Og svo má ég til með að óska minni kæru vinkonu Möggu til hamingju með afmælið. Hún er 30 ára í dag. Ég held ég semji þulu af því tilefni:

Magga mín þrítug
ekki lengur tvítug
kemurðu að róla
er á þér bóla?
Sá ég í dag ungling
hann var með vindling.
Hvers á ég að gjalda
segir hún Skjalda.
Vertu mér ei erfið
brjótum upp kerfið.
Komdu' í heimsókn glófi
hér er svefnsófi ***

*Uppgerðar hógværð. Ég verð fyrir miklum vonbrigðum ef ég kemst að því að fólk fari ekki hingað inn í þessa internetkompu og athugi með mig að minnsta kosti einu sinni í viku. Svo hyggst ég líka auglýsa þessa færslu á facebook þar sem ég hangi oft undir nafni framandverkaflokksins sem ég tilheyri; Kviss búmm bang, og vonast þannig til að næla mér í fleiri aðdáendur**

**Það má heyra af linnulausu tali mínu um aðdáendur að það er ekki alveg í lagi heima hjá mér.

***Ég er með svokallaða brjósta-þoku.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Aldurinn og fréttir

En gaman að eiga svona bloggsíðu. Það nennir enginn að lesa bloggsíður nú til dags. One-linerar á facebook er það mesta sem fólk leggur á sig á að lesa þessa dagana. Fólk er líka orðið svo heimskt af öllum þessum útblæstri og öskufalli, það er ekkert nema aska og koltvísýringur í heilanum á fólki nú til dags.

Þið heyrið á -heimur versnandi fer- tali mínu að ég er að eldast. 

Ég er kannski að eldast, en það er ekkert miðað við vinkonu mína og sambýliskonu, hana Evu Björk Kaaber. Hún varð þrjátu ára þann 13. maí s.l. Heill sé henni.

Í tilefni dagsins ákvað ég að bjóða vinkonunni út að borða, við fórum á take-away stað hérna í borginni, fengum að setjast þar inn og gæða okkur á 2for1 tilboði á tikkamasala. Maður er svo grand á því, kann að tríta kellingarnar. hehe. 

Í dag borðaði ég bara kjöt í hádegismat.

Og um daginn fór ég til útlanda. 


Hræðileg lífsreynsla

Sælinú.

Fyrir þá sem ekki vita bý ég núna með stúlku að nafni Eva Björk Kaaber. Hún er ágæt í flesta staði, en þegar kemur að því að skemmta sér er fátt um fína drætti. Í kvöld stóð til hjá okkur stöllum að hafa gaman. Fyrst lofaði hún mér girls night in með einhverri eðal bíómynd, poppi og tilheyrandi. Þegar til kastanna kom nennti hún ekki labba smá spöl uppá vídjóleigu svo kvöldið var blásið af. Þá datt henni í hug að hafa girls night out og bjóða mér að koma með sér á Hróa Hött þar sem hana grunaði að 2for1 hamborgaratilboð væri í fullum gangi. Þá lyftist nú brúnin á minni og ég samþykkti að fara með. 

Kvöldið var í einu orði sagt hræðilegt. 

2for1 lauk í síðustu viku. Ég þurfti að borga 1590 krónur fyrir hamborgaratilboð sem var grunsamlega fljótt komið á borð til mín eftir að ég pantaði það. Allt sem ég tók eftir var titrandi rauða á hálfhráu eggi sem mér bauð við að horfa á. Ég hugðist taka eggið af hamborgaranum en þá sprakk rauðan og lak yfir allt á diskinum mínum.

Svo var staðurinn fullur af 12 ára strákum á bekkjarkvöldi. Mér fundust þessar klunnalegu innréttingar og plastblóm upp um alla veggi heldur alls ekki smart. 

Eva keypti sér eitthvað barnabox fyrir sjöhundruð kall og fékk sleikjó og svala í kaupbæti. Með hennar mat fylgdi líka þrautablað sem hún lét mig um að leysa á meðan hún gluggaði í fréttablaðið. Ég borðaði hamborgarann minn þegjandi og hljóðalaust og leysti þrautirnar því ég er alin upp við að vera kurteis og gera eins og mér er sagt.

Nú er ég komin heim og reyni að gera gott úr þessu. Hér er mynd af mér. Á bakvið gleraugun fel ég grátbólgin augun en annars reyni ég að brosa gegnum tárin og segja: pís Eva (því ég er eftir allt saman passífisti, elska friðinn). 

hress á hróa


Ég verð.

Ég verð að blogga því ég fékk áskorun frá sambýliskonu minni. Ég hef engan tíma til þess samt. Ekki nokkurn einasta tíma. Ég þarf að mæta klukkan tíu og ég á eftir að setja á mig maskara og kinnalit, hugleiða, klæða mig í útifötin, skafa af bílnum, ég verð að keyra hægt því það er hált og mér sýnist ég sjá eitthvað veður í þessum skýjum sem koma þjótandi yfir hafið, beint til mín. Ef það byrjar að snjóa verð ég lengur á leiðinni því snjókoma ruglar mig svo þegar ég sit undir stýri. Kannski ég þurfi að fá mér nýjar linsur. Kannski kannski, líf mitt er fullt af kannski. Líf okkar allra er fullt af kannski.

Jæja, kannski ég skelli inn einni mynd af mér ljóshærðri. Æji nei, ég get það ekki. Þeir sem eru æstir í að sjá mig svona verða að gera eitt af þrennu
a) skoða www.kvissbummbang.blogspot.com
b) koma í heimsókn
c) freista þess að sjá mig fyrir tilviljun einhversstaðar á ferðinni

Eitt að lokum: veðrið sem ég sá nálgast yfir hafið í þessum skýjum sem komu þjótandi beint til mín, er skollið á.


Flóðgáttin opnaðist

Ég á vinkonu sem við skulum kalla "möggu". Hún er búin að vera vinkona mín voða lengi og við héldum lengi að við myndum velja okkur svipaðar leiðir í lífinu, vinna í sama mötuneytinu eða eitthvað, en það átti ekki fyrir okkur að liggja.

Ég þrái stundum enn að vinna í mötuneyti með Möggu mér við hlið. Við gætum sagt hvorri annarri klúra brandara, lesið stjörnuspárnar okkar og farið saman út í sígópásur (auðvitað myndum við reykja). Á helgum myndum við fara með fleyg af sterku áfengi með okkur á ball, lauma sopa og sopa út í kaffið og dansa og dansa. Svo myndum við finna einhverja lopapeysukarla til að labba með okkur út í nóttina.

En það þýðir ekki alltaf að vera að hugsa um allt það óteljandi marga sem hefði getað gerst. Við höfum það svo gott, við "magga" mín í dag. Jafnvel betra en í draumum mínum.

Bless í bili (ég er búin að opna fyrir einhverja blogggátt). 


sant.

Af því að ég mundi leyniorðið, sem er ykkur að segja alveg ótrúlega flókið, hef ég ákveðið að blogga. Það er langt síðan síðast. Ég segi engar fréttir frekar en fyrri daginn, en jólakveðja er kannski við hæfi, þar sem jólin eru núna á fullu blasti í öllum græjum.

Gleðileg jól!

Ég er annars að horfa á birtuna minnka, mig langar út í göngutúr og læt líklega verða af því innan skamms.

Og svo mynd í lokin, hún er af Kviss búmm bang í vinnunni (það er óþarfi að taka það fram að Evurnar eru hundfúlar yfir einhverju og ég er að reyna að stilla til friðar, sjálf hundfúl yfir einhverju). 

KBB


Lífsins tré

Ég hef það á tilfinningunni að nái ég að lifa lífi mínu samkvæmt þessari formúlu muni öll mín vandræði verða að engu. Fyrst þarf ég bara að átta mig á því hvað þetta þýðir...

tré fullkomnunarinnar


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband