18.11.2012 | 17:59
Myndir frá Helsinki
Ég týndi myndavélinni minni á einhverju kaffihúsi í Helsinki.
Einhver sagði mér að Finnar væru svo heiðarlegir að ef eitthvað týndist myndi það áreiðanlega koma aftur í leitirnar. Það er reyndar alveg í takti við mína reynslu, ég týndi teppinu hans Benjamíns á veitingastað og skiptipokanum hans gleymdi ég í rútu. Það skilaði sér. En myndavélin var ómerkt og ekkert líklegt að hún rati til mín af sjálfsdáðum og ég man ekki nákvæmlega hvar hún hvarf úr vasanum mínum. Mér er ekki svo sárt um gripinn sjálfann, þetta var ekkert sérstök myndavél, en myndirnar sem ég tók í Helsinki eru núna glataðar og það þykir mér miður. Kannski ég lýsi því bara sem ég tók myndir af, þannig festist það í minninu, kannski ekki með eins nákvæmum hætti og ef ljósmyndirnar hefðu varðveist, en einhvernveginn þó.
Benjamín í fyrsta snjónum. Hann í kerrunni, dúðaður og undir tveimur teppum svo rétt sást glitta í nefið á honum, við hliðina á bíl sem var allur í snjó.
Benjamín, ég, Ísak, Maja amma og afi Palli niðri við sjó. Reyndar eru til myndir af þessu á öðrum myndavélum held ég. Ísak á áreiðanlega einhverjar svona á símanum sínum.
Benjamín og Maja amma á kaffihúsi niðri við sjó.
Ég og Ísak í rómantískum göngutúr við stjörnuskoðunarturn rétt hjá höfninni.
Ég, Ísak og Benjamín á Kaffi Success að gæða okkur á kaffi og sætabrauði.
Benjamín á Kapteeninkatu (Kapteinsgötunni) á sunnudegi með marga finnska fána dregna í hún í bakgrunninum.
Svo voru nú einhver fleiri, áreiðanlega ódauðleg augnablik og skemmtilegar myndir af elsku litla snúðnum sem stækkar svo hratt, en kannski er gott að ég muni ekki eftir þeim - þá voru þær kannski ekki svoooo merkilegar.
En þær voru nú fleiri samt. Myndir af Benjamín og pabba hans að labba um götur Helsinki. Myndir af þeim tveimur fyrir utan hvítu kirkjuna og inní henni. Aha, hún er þar, myndavélin... eða nei, ég tók myndir af okkur á Nepölskum veitingastað seinna sama dag. Ég held ég viti núna hvar hún er, hún er á kaffi Úrsúlu, átthyrningi úr gleri þar sem hægt er að fá dýrindis salat, kaffi með og allskonar sætabrauð fyrir ekki svo margar júrur. Kannski ég biðji eina finnska vinkonu um að tékka hvort hún sé þar, ef ekki þá kannski finn ég hana næst þegar ég kem til Helsinki, - í júní á næsta ári. Annað eins hefur nú gerst.
Jæja... skrítið að blogga. Til hvers ætli ég sé að standa í þessu? Ég grínaðist ekkert.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.