Ekki greiða fyrir umferð!

Tæknibyltingin hefur miðað ansi mikið að því í gegnum tíðina að við hreyfum líkama okkar sem minnst. Við förum í lyftur frekar en að labba upp stiga, við keyrum frekar en að labba, við notum lyftara í stað þess að nota vöðvana og svona mætti lengi telja. Ekki er þetta allt slæmt, en auðvitað hefur okkur tekist að misnota gæðin. Meira að segja svo hrottalega að samkvæmt nýlegri skýrslu Sameinuðu Þjóðanna um loftslagsbreytingar mun sú hlýnun jarðar sem nú þegar er hafin, hafa þau áhrif að hækkun hitastigs og hækkun sjávarmáls mun halda áfram um komandi aldir burtséð frá hvernig mannkynið nær að stýra mengun. Þetta þýðir, svo ég vitni í orð Jacques Chirac Frakklandsforseta að við stöndum nú þegar á "sögulegum þröskuldi hins óafturkræfa". Við erum þegar búin að menga svo mikið að við getum afar lítið gert til að stöðva þessa þróun héðan af. Það sem við getum samt gert er að hægja á þróuninni og það krefst tafarlausra aðgerða stjórnvalda og okkar allra. Við birtingu skýrslunnar gáfu stjórnvöld í Bandaríkjunum, þeirrar þjóðar sem losar mest allra þjóða af gróðurhúsalofttegunudum út í andrúmsloftið, út þá yfirlýsingu að þau ítrekuðu andstöðu sína við reglur um leyfilega losun gróðurhúsalofttegunda sem margar þjóðir hafa lýst sig fylgjandi. Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé hægt að lögsækja stjórnvöld í Bandaríkjunum hjá alþjóðadómstólum fyrir glæpi gegn mannkyninu? (Nú mega lögfróðir menn tjá sig um málið).

Við höfum verið alin upp við það frá barnsaldri að gera alltaf bara það sem er þægilegast fyrir okkur sjálf. Nú er kjörið tækifæri að láta helstu einkabílaæðar borgarinnar stíflast svo mikið að fólki fari að finnast þægilegra að taka strætó eða samnýta bílana heldur en að rúnta eitt í sínum bíl alltaf. Ég legg það til að stjórnvöld eyði þeim peningum sem annars færu í að greiða fyrir bílaumferð í borginni, í að koma á fót ókeypis, skilvirkum almenningssamgöngum. Jafnvel væri ráð að þrengja vegina enn meira til að flýta fyrir þróuninni. Tekið skal fram að mér gæti ekki verið meiri alvara.


mbl.is „Sláandi“ framtíðarsýn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær grein !  Takk

birna (IP-tala skráð) 8.3.2007 kl. 14:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband