Viva la feminismus!

feminismKarlar eru frá mars og konur frá Venus er að mínu mati ein best skrifaða afsökun fyrir leti vegna kynferðis sem um getur í sögu mannkyns. Karlmenn kunna bara ekkert að strauja. Karlmenn geta bara hugsað eitt í einu. Karlmenn kunna ekki á þvottavélar. Karlmenn eru betri í raungreinum en konur. Konur hugsa með vinstra heilahveli. Þær eiga erfiðara með að læra muninn á hægri og vinstri. Þær geta hugsað um marga hluti í einu. Grundvallar sjónarmið bókarinnar er að karlar og konur séu gjörólík að eðlisfari. Okkur sauðsvörtum almúganum hættir til að slá fullyrðingum úr bókinni fram sem heilögum, óbreytanlegum staðreyndum án þess að efast um sannleiksgildi þeirra. Það þykir mér sorglegt.

Á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar fóru femínistar að efast hátt og opinberlega um eðlismun á kynjunum og héldu því fram að einungis væru um  menningar- og félagsbundna kynjamótun að ræða (Þorgerður Þorvaldsdóttir, 2000). Á sama tíma fóru akademískir rannsakendur að beina sjónum sínum að "eðlislægum" mun á milli kynjanna. Þeir rannsökuðu til dæmis færni fólks til að hugsa og sinna hinum ýmsu verkum og komust að því að einhver munur virtist vera á hæfni fólks eftir því hvort manneskjan var kona eða karl. Karlar kunnu í alvörunni minna á þvottavélar en konur. Karlar voru í alvörunni færari í raungreinum en konur á meðan þær áttu auðveldara með að læra tungumál og listgreinar. Karlar virtust eiga betra með að einbeita sér að einu verkefni í einu á meðan konum var í lófa lagt að sinna mörgum hlutum í einu. Rót þessa mismunar var talin liggja í mismunandi heilastarfsemi. Karlar voru sagðir nota hægra heilahvelið meira og konur hið vinstra. Síðan þá hefur þessi fróðleikur verið notaður óspart til að afsaka lélega færni fólks á einstökum sviðum. Karlar fría sig ábyrgð á heimilishaldi og nota niðurstöður heilarannsóknanna sem afsökun. Konur veigra sér við því að sinna störfum sem krefjast rökhugsunar og vöðvamassa og bera fyrir sig listrænu "eðli" og veikri vöðvabyggingu.

Reglulega eru svo gerðar nýjar rannsóknir sem staðfesta þennan mun. En ástæðan fyrir því að niðurstöðurnar hafa verið þær sömu síðan á sjöunda áratugnum er sú að við róum að því öllum árum að viðhalda þessu ástandi. Frá unga aldri þjálfum við okkur markvisst í því að nota aðeins þann hluta heilans sem okkur hefur verið sagt að sé meira notaður af okkar kyni. Við tökum þessum fullyrðingum sem heilögum, óbreytanlegum sannleika og okkur dettur ekki í hug að reyna að ala börnin okkar upp utan ramma hefðbundinna kynjahlutverka. Nánast á hverjum degi lesum við um það í öllum helstu fjölmiðlum að hin eða þessi rannsóknin hafi verið gerð sem staðfestir enn það sem við vissum alltaf; að karlar geti hvorki straujað né sett í þvottavél og það hafi eitthvað með það að gera að þeir geti ekki hugsað nema einn hlut í einu. Þetta gerir þeim líka illmögulegt að sjá um ungabörn og halda heimili því slíkt krefst þess að huga þarf að mörgum litlum hlutum í einu. Neðst í sömu grein má venjulega lesa um að enn og aftur hafi verið sýnt fram á að konur eigi erfiðara en karlar með að þekkja muninn á hægri og vinstri og þetta sé líklega skýringin á því af hverju flestir stjórnendur heimsins séu karlmenn; þeir eigi betur með að rata í rétta flokka og vísa heiminum leiðina til glötunar.

Eitt virðist gleymast við gerð og gagnrýni á þessum kynjarannsóknum. Munurinn á heilastarfsemi fólks er mikill milli einstaklinga og það gleymist oft að taka þá staðreynd með í reikninginn þegar vitnað er í þessar rannsóknir að yfirleitt er meiri munur innan hvors hóps um sig en á milli kynjanna tveggja (Heiða María Sigurðardóttir 2005).

Þegar gagnkynhneigt fólk stofnar til ástarsambands er eins og það geri með sér ómeðvitaðan samning um að hitt kynið hugsi um það sem manns eigin kyni hafi ekki "verið áskapað" að hugsa um. Karlarnir gera við bílana, skipta um ljósaperur og bora göt í veggi á meðan konurnar vaska upp, þvo þvott og baða börnin (áður en lesandi stoppar hér til að andmæla þessari fullyrðingu og segja að verkaskipting á heimilum sé allt önnur en hún var einu sinni, langar mig að biðja hann/hana um að gera stutta könnun á því í huganum hver sér um að þvo þvottinn á heimili para í nánasta umhverfi hans/hennar, og af hverju?).

Það er samt ekki bara verkaskipting á heimilunum sem verður fyrir barðinu á fúsleika okkar til að trúa öllu því sem okkur er sagt heldur gerir þetta það að verkum að samfélagsgerðin helst óbreytt. Vert er að geta þess að eitt megin einkenni samfélagsgerðar vestræna heimsins er, og hefur verið frá því í Grikklandi til forna, að nánast einungis karlar sitja við stjórnvölinn. Sú staðreynd er ekki eins slæm og hin að mannkynið stendur enn í þeirri trú að karlar og konur séu ófullkomin sitt í hvoru lagi og staðfestir það með því að styðja sig við hitt kynið í svokölluðum ástar-samböndum.

Annað hvort þarf fólk að fara að hafa meiri trú á sjálfu sér eða stjórnendur heimsins þurfa að vera að helmingi til konur. Þangað til það gerist er heiminum stjórnað af einu heilahveli. Við hljótum að geta gert betur en það.

 Heimildir:
Heiða María Sigurðardóttir. "Hver er munurinn á heila karla og kvenna?". Vísindavefurinn 29.11.2005. http://visindavefur.hi.is/?id=5442. (Skoðað 08.3.2007).

Þorgerður Þorvaldsdóttir. "Er í alvöru til eitthvað sem heitir eðli, hjá mannfólkinu og sem munur á milli kynjanna?" Vísindavefurinn 3. 11. 2000. http://visindavefur.hi.is/?id=1084. (Skoðað 08.3.2007).

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband