9.3.2007 | 17:01
K.L.Á.M.
Eftir stóra klámráðstefnumálið ákváðum frændi minn Ólafur Eiríkur og ég að skoða lagalega stöðu kláms hér á landi og eftir að hafa lesið 210. gr. Almennra hegningarlaga ákváðum við að leita svara við því hvers vegna þessum lögum væri ekki framfylgt hér á landi. Ég sendi Ríkislögreglustjóra tölvupóst og samskiptin voru á þessa leið:
Sunnudagur 4. mars 2007
Góðan og blessaðan daginn.
Ég heiti Vilborg Ólafsdóttir og ég hef eina spurningu sem varðar 210. gr. almennra hegningarlaga. Greinin lítur svona út:
"Ef klám birtist á prenti, skal sá, sem ábyrgð ber á birtingu þess eftir prentlögum, sæta sektum 1) eða fangelsi allt að 6 mánuðum.
Sömu refsingu varðar það að búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt út klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum, eða hafa þá opinberlega til sýnis, svo og að efna til opinbers fyrirlestrar, eða leiks, sem er ósiðlegur á sama hátt."
Nú eru klámtímarit eins og B&B gefin út hér á landi og seld víða, svo ég taki aðeins eitt dæmi af öllu því klámi sem gengur kaupum og sölum á Íslandi.
Eftir því sem mér skilst best er það embætti ríkislögreglustjóra sem sér um að framfylgja lögum sem þessum. Fyrirspurn mín hljóðar því svona:
Af hverju er þessum lögum ekki framfylgt?
Ég æski svars.
Með ósk um góðan dag,
Vilborg Ólafsdóttir
kt. 190782-5229
s. 849-7988
Þriðjudagur 6. mars 2007
--- Páll Winkel <pw@rls.is> schrieb:
> Sæl Vilborg
> Haraldur hefur falið mér að svara erindi þínu. Áður
> en lengra er haldið bið ég þig um að upplýsa það
> hvaðan sú vitneskja sé komin að ríkislögreglustjóri
> framfylgi 210. gr. almennra hegningarlaga svo unnt
> sé að veita þér viðeigandi leiðbeiningar samkvæmt
> stjórnsýslulögum.
>
> Með kveðju,
>
> Páll E.
Þriðjudagur 6. mars 2007
Sæll og blessaður Páll.
Samkvæmt 5.gr. Lögreglulaga, lið a), ber Ríkislögreglustjóra, sem er sá aðili sem fer með málefni lögreglunnar í umboði æðsta yfirmanns lögreglunnar í landinu, eða dómsmálaráðherra, að:
"flytja og kynna lögreglustjórum boð og ákvarðanir æðstu handhafa ríkisvaldsins sem snerta starfsemi lögreglunnar með einum eða öðrum hætti og vinna að og fylgjast með að þeim ákvörðunum verði fylgt í starfsemi lögreglunnar,.."
Samvkæmt 2.gr. Lögreglulaga, lið c) ber lögreglunni að:
"vinna að uppljóstran brota, stöðva ólögmæta háttsemi og fylgja málum eftir í samræmi við það sem mælt er fyrir um í lögum um meðferð opinberra mála eða öðrum lögum,.."
Vitneskja mín er því meira í ætt við eðlilega ályktun, en mér þótti réttast að beina erindi mínu til æðstu yfirvalda lögreglunnar í landinu. Vænt þætti mér um, ef þér er ófært að svara spurningu minni, að þú segðir mér hver ber ábyrgð á því að lögum sem þessum sé framfylgt svo ég geti beint spurningu minni þangað.
Með þökk fyrir skjót viðbrögð,
Vilborg Ólafsdóttir
kt. 190782-5229
s. 849-7988
Enn hef ég ekki fengið frekari svör frá Páli E. Winkel né öðrum frá embættinu.
Ólafur fór aðra leið að málinu og hérna birti ég sögu hans í bréfi sem hann sendi til fjölmiðla eftir að hafa komið víða við í leit sinni að sannleikanum:
Akureyri, 8. mars 2007Til þeirra sem málið varðar: Ég heiti Ólafur og er búsettur á Akureyri um þessar mundir. Eftir að hafa fylgst lítillega með umræðunni um klámráðstefnuna, sem til stóð að halda hér á landi, fór ég að velta því fyrir mér hver lagaleg staða kláms væri hér á landi. Í 210.gr. Almennra hegningarlaga segir að það sé ólöglegt með öllu, sama í hvaða formi það er; hvort sem að um er að ræða á prenti eða myndskeiðsupptökur. Þar segir að ólöglegt sé að flytja til landsins klám, eða framleiða það hér á landi.
Eftir að ég komst að þessu fór ég að velta því fyrir mér, þar sem að ég er ekki lögfróður heldur aðeins forvitin maður, hvort það væri hægt að fá einhverja undanþágu frá þessum lögum, þar sem að klám er vissulega til sölu á nánast hvaða bensínstöð, matvöruverslun, eða bókabúð hér á landi.
Ég fór af stað og keyrði hér einn hring á Akureyri, talaði við starfsfólk í verslunum þar sem þetta efni er til sölu og spurði hvort að einhverjar undanþágur fyrir dreifingunni hefðu verið fengnar frá sýslumanni. Það kannaðist enginn við það. Því næst ákvað ég að sækja um undanþágu frá lögunum hjá sýslumanni. Þar var tekið vel á móti mér og mér tilkynnt að það væri ekki hægt að fá nokkra undanþágu frá þessum lögum og að klám væri með öllu ólöglegt á Íslandi, það stæði skýrum stöfum í lögunum. Þá spurði ég viðkomandi (ónafngreindan starfsmann hjá sýslumannsembættinu) af hverju það væri þá verið að selja þetta útum allt hérna á Akureyri. Ég fékk það svar að erfitt væri að skilgreina hvað klám væri í raun og veru og þar af leiðandi erfitt að segja hverjir væru brotlegir og hverjir ekki.
Samræðurnar leiddu í ljós þá sannfæringu starfsmannsins að klám væri eitthvað kynferðislegs eðlis sem misbyði siðferðiskennd einhvers. Ekki gat hann þó svarað mér því; hver sá sem misboðið væri þyrfti að vera til að gripi yrði til aðgera. Eftir þessar samræður komst ég að þeirri niðurstöðu að 210. gr. Almennra hegningarlaga tekur til hluta sem enn hafa ekki verið skilgreindir og þess vegna er ekki hægt að bregðast við þeim. Hver sem er getur skilgreint klám fyrir sig og með því að víkka út persónulegar skilgreiningar má komast upp með að selja ýmislegt, sem að mínu mati og annarra getur í besta falli talist óhæfa og í versta falli ofbeldi.
Með þessa vitneskju í farteskinu fór ég af stað og keypti Bleikt og Blátt í Nettó, þar sem ég skilgreini sjálfur efni tímaritsins sem klám. Þetta fór ég með upp á lögreglustöð með orð hins opinbera starfsmanns hjá sýslumannsembættinu og 210. gr. Almennra hegningarlaga í höfðinu á mér og tilkynnti glæp. Ég hefði í höndunum ólöglegan varning sem bæði hefði verið framleiddur ólöglega og seldur ólöglega hér á landi, samkvæmt landsins lögum.
Þar sem það er í hluta lögreglunnar að halda uppi lögum og reglu hér í landinu hélt ég að þeir færu strax af stað og tækju á málinu, en reyndin varð önnur. Það kom á þá fát og nú er verið að hugsa um hvort það eigi að gera eitthvað í málinu yfir höfuð. Ég vil árétta að málið snýst ekki um hvort klám ætti að vera löglegt hér á landi eða ekki. Málið snýst um að allir þegnar landsins og lögreglan fari eftir gildandi lögum, ellegar verði þeim breytt til samræmis við það sem lýðurinn vill. Mér er ekki vel við að sett séu merkingarlaus lög hér á landi sem að ekki er hægt að framfylgja.
Virðingarfyllst,Ólafur Eiríkur Þórðarson
Í morgun birtist fréttatilkynning á forsíðu Fréttablaðsins um málið. Á mánudaginn fæst úr því skorið hvort lögreglan á Akureyri aðhafist eitthvað í málinu.
Nú er bara að bíða og sjá..
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:06 | Facebook
Athugasemdir
Ú, en spennó!
Bíð spennt! :)
Fanney Dóra Sigurjónsdóttir, 9.3.2007 kl. 19:17
Alveg er þetta frábært framtak hjá ykkur. Nú er spennandi að fylgjast með hver svörin verða. Margir ungir feministar hafa kært klám til lögreglunnar. Það vantar að vinna þessa skilgreiningarvinnu til að hægt sé að greina í sundur ofbeldið frá erótíkinni. Allt snýst þetta jú um vitundarvakningu, meðvitund og ábyrgð.
Halldóra Halldórsdóttir, 9.3.2007 kl. 19:22
Það verður gaman að fylgjast með þessu, frábær hugmynd.
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 9.3.2007 kl. 21:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.