Um verðgildi lífs

Ég gerði merkilega uppgötvun í dag.

Ég sat við eldhúsborðið um kaffileytið og fylgdist með flugu þar sem hún lá á bakinu og baðaði út öllum öngum og gat enga björg sér veitt. Hún hafði orðið fyrir eitrun og átti ekkert eftir nema deyja.

Ég fór að velta því fyrir mér hvað ég myndi gera í sömu stöðu, þ.e. ef ég fyndi að ég hefði orðið fyrir áhrifum einhvers eiturs eða að líkami minn léti allt í einu ekki að stjórn. Auðvitað myndi ég reyna að ná í síma og hringja í 112. Svo myndi koma sjúkrabíll og sjúkraflutningamenn myndu koma mér á þar til gert sjúkrahús þar sem við mér tækju læknar og hjúkrunarfólk sem myndu gera allt sem í þeirra valdi stæði til að halda í mér lífinu. Mamma myndi hringja í systkini mín og vini og allt þeirra líf færi að snúast um hvort ég hefði það af eða ekki.

Þá fór ég að velta því fyrir mér hvað líf einnar flugu er mér lítils virði og hvað líf einnar manneskju hlýtur að vera lítils virði í augum einhvers annars. Hvað ef flugur væru með heilbrigðiskerfi? Hvað ef þessi fluga myndi draga upp síma og hringja í númer og tvær feitar fiskiflugur kæmu og flygju með hana á einhvern stað þar sem tveir geitungar myndu gefa henni lyf, létu hana æla og héldu henni svo sofandi í nokkra daga, myndi ég þá hafa meiri samúð með henni? Í þeirri andrá hringdi síminn í annað skiptið þann daginn og ég hugsaði: djöfulsins ófriður er þetta alltaf hreint.

Þá rann upp fyrir mér ljós; - ég hef alltof lítið að gera.

Photo 302 (Þetta er mynd af þremur flugum sem allar létu lífið nú fyrir skemmstu, blessuð sé minning þeirra)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

þú hatar flugur

Reynir (IP-tala skráð) 25.7.2008 kl. 18:57

2 Smámynd: Vilborg Ólafsdóttir

Ég er farin að kunna að meta þær betur. Ég held jafnvel að ég elski þær.

Vilborg Ólafsdóttir, 2.8.2008 kl. 20:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband