Lífið í útlöndum

Ég er komin til Bandaríkjanna. Í flugvélinni á leiðinni hingað sátum við mamma við hliðina á manni sem mér sýndist vera Woody Allen, en vegna lélegrar sjónar er mér ekki treystandi til að hafa rétt fyrir mér í svona málum. Mömmu fannst hann allavega fyndinn. Hér er mynd af þeim saman:
Woody Allen og mammaAnnars heyrði ég í morgunfréttunum (eða sá á flatskjánum sem er í eldhúsinu hérna) að efnahagsástandið í landinu væri hörmulegt. Ég finn hjá mér brennandi löngun til að safna peningum handa þessum vesalingum. 


Órökréttur ótti

Ég óttast að einn daginn muni ég fara á fætur, gera einhver mistök í uppáhellingunni og sitja uppi með fullan bolla af alltof þunnu kaffi.

weak coffee


Kaflaskil

Nú fer að líða að lokum dvalar minnar hér á Borgarfirði eystra. Til að allar upplýsingar komist skipulega til skila hef ég ákveðið að gera tvo lista. Einn yfir það sem ég lærði og annan yfir það sem ég lærði ekki. 

Það sem ég lærði:

- Ég get búið til hvað sem er úr pappamassa.
- Ég get búið til hvað sem er úr tómum kornflexpökkum.
- Ég kann að teikna.
- Ég veit hvernig á að ryksuga flugur í handryksugu, dauðar og lifandi, og mér finnst það ekkert ógeðslegt.
- Um miðbik dvalar minnar hér lærði ég loksins að ég er of stór fyrir kjallarann og efri hæðina á þessu húsi og hætti að reka höfuðið upp undir alltaf. 

Það sem ég lærði ekki:

- Hvernig á að borða slátur.
- Hvernig á að fá hunda til að hlýða.
- Hvernig best sé að skilja við hund sem vælir og ýlfrar eins og maður sé að slíta úr honum hjartað þegar maður fer frá honum.
- Hvernig á að hætta að bregðast við býflugum á öfgafullan hátt sem gerir lítið úr sjálfri mér og viðstadda vandræðalega. (Nýjasta varnarviðbragðið er að ræskja mig mjög hátt og lengi svo ég heyri ekki í suðinu í þeim. Það er alveg eins geðveikislegt og það hljómar).

Hér er mynd af mér í heimatilbúinni atferlismeðferð til að losna við fælnina, ég tek stöðugum framförum:

Photo 298


Nýr klúbbur lítur dagsins ljós

Ég er búin að stofna prjónaklúbb, hann hefur hlotið nafnið Höldum áfram. Enn sem komið er er ég eini meðlimurinn en látið mig vita ef þið viljið vera með, ég fer yfir allar umsóknir eins fljótt og auðið er. 

Reglur klúbbsins eru eftirfarandi:

1. Aldrei að laga neitt sem fer úrskeiðis.
2. Aldrei að viðurkenna mistök.
3. Aldrei að byrja upp á nýtt.
4. Alltaf að renna blint í sjóinn með ný verkefni.
5. Alltaf að gera meira en maður kann eða hefur hæfileika til.

Hér er mynd af stelpunni með á prjónunum. Þetta verður örugglega peysa. 

Photo 115


Uppáhalds

Uppáhaldskaffibollinn minn hér á Borgarfirði er bolli sem vinnuveitandi minn keypti á ferðalagi sínu til Jamaica á dögunum. Þetta ferðalag var að hans sögn alveg æðislegt. 

Photo 111


Myndir & listi

Listi yfir eitt og annað sem mér þykja tíðindi og á daga mína hefur drifið:

  • Ég fór í Loðmundarfjörð í dag, borðaði fyrstu krækiber ársins, keyrði jeppa á lélegum vegi og sá risastóra hjörð af hreindýrum.
  • Mamma og pabbi komu og gengu í Stórurð, höfðu af mér Bræðslutónleikana og fengu í hnén og mjaðmirnar, enda fjörgömul.
  • Jónína og Viðar eignuðust strák á afmælisdeginum hennar mömmu minnar, allt gekk vel og drengurinn er strax farinn að geta svarað spurningum pabba síns um hver söng hvaða hlutverk í hvaða óperu, á ítölsku.
  • Bjarni og Bella eignuðust líka lítinn strák og gerðu mig þar með að afasystur. 
  • Depli, öðrum hundinum á bænum, var fargað.

Myndir af mér að takast á við þær tilfinningar sem atburðir liðinna daga hafa vakið:

Photo 306

Photo 315

 Photo 314

Photo 316

 


Um verðgildi lífs

Ég gerði merkilega uppgötvun í dag.

Ég sat við eldhúsborðið um kaffileytið og fylgdist með flugu þar sem hún lá á bakinu og baðaði út öllum öngum og gat enga björg sér veitt. Hún hafði orðið fyrir eitrun og átti ekkert eftir nema deyja.

Ég fór að velta því fyrir mér hvað ég myndi gera í sömu stöðu, þ.e. ef ég fyndi að ég hefði orðið fyrir áhrifum einhvers eiturs eða að líkami minn léti allt í einu ekki að stjórn. Auðvitað myndi ég reyna að ná í síma og hringja í 112. Svo myndi koma sjúkrabíll og sjúkraflutningamenn myndu koma mér á þar til gert sjúkrahús þar sem við mér tækju læknar og hjúkrunarfólk sem myndu gera allt sem í þeirra valdi stæði til að halda í mér lífinu. Mamma myndi hringja í systkini mín og vini og allt þeirra líf færi að snúast um hvort ég hefði það af eða ekki.

Þá fór ég að velta því fyrir mér hvað líf einnar flugu er mér lítils virði og hvað líf einnar manneskju hlýtur að vera lítils virði í augum einhvers annars. Hvað ef flugur væru með heilbrigðiskerfi? Hvað ef þessi fluga myndi draga upp síma og hringja í númer og tvær feitar fiskiflugur kæmu og flygju með hana á einhvern stað þar sem tveir geitungar myndu gefa henni lyf, létu hana æla og héldu henni svo sofandi í nokkra daga, myndi ég þá hafa meiri samúð með henni? Í þeirri andrá hringdi síminn í annað skiptið þann daginn og ég hugsaði: djöfulsins ófriður er þetta alltaf hreint.

Þá rann upp fyrir mér ljós; - ég hef alltof lítið að gera.

Photo 302 (Þetta er mynd af þremur flugum sem allar létu lífið nú fyrir skemmstu, blessuð sé minning þeirra)


Fyrirsögn

Mig langar að þakka öllum þeim sem hringdu, sendu mér skilaboð og gjafir á afmælinu mínu hjartanlega fyrir. Ég var á Seyðisfirði á lokatónleikum LungA. Es war mehr als wunderschön.

Ég er enn stödd á Borgarfirði. Hér er allt með kyrrum kjörum. Hannes Óli Ágústsson kom reyndar í bæinn um helgina með þrjúhundruð manns með sér. Es war mehr als erotisch.

Nýja uppáhalds mitt er að slá gras. Es ist wahnsinnig.

Hier ist ein foto;  Geile Unterhosen. 

Photo 297

 

 


Á nýjum stað

Ég er á Borgarfirði eystri og verð hér restina af sumrinu. Ég hlakka til að fá ykkur sem ætlið að koma hingað í heimsókn og þið hin sem ekki eruð búin að boða komu ykkar, þið eruð líka velkomin.

Photo 280 Hér er mynd af mér á Borg. Í þessari stofu sat Kjarval og málaði til dæmis þessa mynd sem sést glitta í þarna á bakvið mig. Líklega leiddist honum bara vegna þess að flatskjárinn var ekki kominn þá. Núna myndi hann auðvitað bara liggja í sófanum og horfa á Scrubs og Everwood, í mesta lagi standa upp til að poppa.

Í gær fór ég í göngutúr með óþekka hunda. Þeir hlupu út um allt og nældu sér einhversstaðar í þurrkaðan þorskhaus, kúkuðu í annan hvern garð í þorpinu, stríddu öðrum hundi sem var bundinn og geltu á ketti. Kannski má ekkert fara með svona hunda ólarlausa í göngutúr. Ég held allavega að ég láti það vera þangað til eigandi þeirra kemur heim.

 


Það er til borg sem heitir Spilaborg

Ég er norðan heiða í faðmi fjölskyldu minnar. Þetta er hluti af henni; gamla fólkið og litlu börnin. Þetta vaknar fyrir allar aldir. Sem betur fer eru þau lunkin við að hella upp á rótsterkan sopa, annars væri ég varla vakandi.

Photo 163Amman getur búið til spilaborg úr heilum spilabunka. Afinn vill horfa Eddy Murphy í sjónvarpinu áður en hann fer í búðina eftir mjólk. Amma sagði að það væri allt í lagi en aðrir mótmæltu, einkum vegna þess að klukkan er 11 fyrir hádegi. Fimm ára barnið raular með sálmunum í útvarpinu og yngsta barnið talar tungumál sem enginn skilur. Faðir barnanna liggur í rúminu, ofurlítið slasaður á auganu. 

Hvað þýðir miskunn?
Miskunn? Miskunn er náð. Veistu hvað náð er?
Hvað?
Ég veit það ekki alveg sjálf.

Svona gengur þetta. Photo 272

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband