Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
23.4.2007 | 16:17
Heimsfrægðin bankar á dyrnar
Ég var víst búin að lofa að blogga oftar. Svo hér kemur það: Ég er á barmi heimsfrægðar. Plakatið hér til vinstri er frá kvikmyndahátíð í Tékklandi þar sem mynd eftir mig var sýnd. Hún var haldin þann 18. apríl og sannast sagna er ég afar miður mín að hafa ekki getað verið viðstödd sýninguna. Ég sendi samt Jesús sem staðgengil fyrir mig og mér skilst hann hafi staðið sig með sóma, heilsað rétta fólkinu og svona.
Fyrir utan heimsfrægð er lítið að frétta. Ég er að halda matarboð fræði og framkvæmdar í kvöld. Á borðum verður indverskur kjúklingaréttur, íslensk kjötsúpa, salat með hráskinku og óvissugrænmetisréttur. Í eftirrétt verður boðið upp á ávaxtasalat. Tekið skal fram að ég elda þetta ekki allt ein, heldur leggja mér lið nokkrir vel valdir einstaklingar úr bekknum.
Eitt til að velta fyrir sér að lokum: Hvað liggur á?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.4.2007 | 18:25
Við hvað eruð þið hrædd?
Í þessari frétt segir frá aðstæðum tveggja fjölskyldna af þeim tveimur milljónum Íraka sem hafa neyðst til að flýja landið sitt vegna stríðsins sem þar geysar. Vesalings fólkið býr sem ólöglegir innflytjendur í löndunum í kring sem þýðir að það getur ekki einu sinni unnið fyrir sér.
Á vísi.is (ætli ég verði ekki rekin af moggablogginu fyrir að vísa svona oft í vísi) birtist þessi frétt í dag:
Meirihluti vill hertar reglur um útlendinga
Meira en helmingur landsmanna vill hertar reglur um útlendinga á Íslandi. Þetta kemur fram í könnun sem Capacent gerði og birtist í Morgunblaðinu í dag. Flestir kjósendur Framsóknarflokks vilja hertar reglur, eða yfir 70 prósent. Þá vilja 58 prósent Sjálfstæðismanna og 56% Vinstri grænna herta löggjöf.
Minnst er fylgið í röðum Samfylkingarinnar, þar vilja þó um 42 prósent herta útlendingalöggjöf. Aðrir flokkar eru ekki tilgreindir í könnuninni. Mestur er stuðningur við herta löggjöf í Norðvestur-kjördæmi en minnstur í Norðaustur-kjördæmi. Könnunin var gerð 3. til 9. apríl, 940 voru spurðir og svarhlutfall var 62 prósent.
Nú veit ég ekki hvað í "hertari reglum" felst nákvæmlega, en ég ímynda mér að þarna sé ekki átt við að efla þá tilfinningu fyrir fólk af öðru þjóðerni að það sé velkomið, og meira en velkomið, að deila með okkur þessu landi sem við vorum svo heppin að fæðast á.
Ég fór á ráðstefnu í dag, um málefni innflytjenda á Íslandi og það var ansi fróðleg ráðstefna. Ég hjó sérstaklega eftir því í erindi Sigtryggs Jónssonar, framkvæmdastjóra Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða, að innflytjendur þyrftu að aðlagast lífi á nýjum stað, nýju föðurlandi og nýrri menningu. Eftir því sem mér skilst af svari hans við fyrirspurn minni átti hann við að við þyrftum öll að aðlagast nýju föðurlandi og nýrri menningu, ekki bara innflytjendurnir heldur líka þeir Íslendingar sem fyrir eru í landinu. Þar er greinilega góður vilji á bak við þótt enn vanti töluvert upp á stefnumótum í því hvernig mennta á Íslendinga til að takast á við að búa í alþjóðasamfélagi án þess að vera sífellt hræddir um að verið sé að taka eitthvað af þeim, eða að þeim sé vegið á einhvern hátt.
Persónulega fyndist mér eðlilegast að ríkisstjórn Íslands byði alla flóttamenn frá Írak velkomna til að búa hérna sem fullgildir íslenskir ríkisborgarar eins lengi og þeir kjósa. Eftir allt saman var það hún sem samþykkti að svipta þá öllum lífsgæðum í landinu sem þeir fæddust í.
Tvær milljónir Íraka hafa flúið land | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.4.2007 | 12:59
Klöppum fyrir lögreglunni
Þessi mynd birtist á vísi.is í morgun. Þetta er mynd af mótmælendum og lögreglu í Moskvu. Mótmælendurnir vilja standa vörð um lýðræðið því þeim finnst Vladimir Pútín vera að færa sig upp á einræðisskaftið. Sért er nú hvert lýðræðið, en ég vona að ég lendi aldrei í því að fjórir karlmenn í kamóflas snerti á mér rassinn í sömu mund og þeir troða mér gargandi upp í vörubíl.
Lögreglan á Íslandi er svosem ekki að snerta rassinn á mótmælendum, allavega ekki svo ég viti, enda er hún ekki næstum því eins kvikk og lögreglan í Rússlandi. Setningu dagsins á lögregluþjónn að nafni Óskar Sigurðsson. Hann fer með rannsókn á máli öryrkja sem stendur í nágrannadeilum. Þegar Óskar þessi var inntur eftir gengi rannsóknarinnar sagði hann: "Hlutirnir gerast ekki samdægurs".
Annars er það helst í fréttum að Vilhjálmur prins hætti með kærustunni sinni til að byrja með mér. Ég sagði honum að hann væri of mikið að fávitast í hernum fyrir minn smekk. Batnandi mönnum er þó best að lifa og ef hann verður ennþá jafn ástsjúkur í haust, þegar ég fer til Wales að stúdera, og hættir í hernum í dag þá lofaði ég að bjóða honum í te.
12.4.2007 | 10:05
Ársfrí á geðdeild
Ég fór á stórmyndina 300 um daginn. Mér fannst hún fyndin. Alltaf svolítið hallærislegt þegar fólk fer af stað með her til að bjarga landinu sínu. Eða lýðræðinu sínu. Eða peningunum sínum. Eða þjóðinni sinni. Eða typpinu sínu. Mér finnst bara hallærislegt að fara í stríð. Mér finnst barnalegt að hefna sín. Ég hef stundum hefnt mín um ævina, en það hefur alltaf bitnað verst á sjálfri mér. Einu sinni var bróðir minn leiðinlegur við mig og ég ætlaði að hella yfir hann úr mjólkurfernu. Það fór ekki betur en svo að í æsingnum skvettist mest af mjólkinni á sjálfa mig og gólfið.
Alltént.
Það stendur til að láta bandaríska hermenn dvelja í fimmtán mánuði í Írak og Afganistan í stað árs eins og það var áður. Þeir fá svo árs frí frá bardögum eftir að skyldunni er lokið. Júhú.
Klámmálið mikla stendur í stað. Opinbert bréf hefur borist frá Sýslumanninum á Akureyri þar sem hann neitar að gera nokkuð í málinu þar sem um er að ræða að því er virðist lögráða einstaklinga í blaðinu. Við Óli erum að íhuga næstu skref. Mér þætti reyndar gaman að heyra frá þeim sem hafa kært klám til ríkissaksóknara. Hvað kom út úr því?
Verið annars velkomin á ókeypis sýningu með mér og átta öðrum snillingum í aðalhlutverki í gömlu kartöflugeymslunum í Ártúnsbrekku, föstudagskvöld, laugardagskvöld og sunnudagskvöld klukkan 21.
Ég skal vera duglegri að blogga.
20.3.2007 | 23:40
Skrýtni
Eftirfarandi er tekið af síðu Barnaheilla. Skoðið nánar hér. Mig langar að vita hvað var gert við þessar tillögur. Ef einhver veit það má sá segja mér.
"Í marsmánuði 2001 var kynnt skýrsla um rannsókn sem unnin var á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytis um klám og vændi á Íslandi og félagslegt umhverfi þess. Í kjölfarið var síðan skipuð nefnd sem var falið að leita frekari leiða varðandi úrbætur. Nefndin er skipuð fulltrúum dómsstóla, Áfengis- og vímuvarnaráðs, félagsmálaráðuneytis, heilbrigðis- og trygginga-mála-ráðuneytis, samgönguráðuneytis, lögreglu og Reykjavíkurborgar.
Nefndin skilaði tillögum um úrbætur í júnímánuði 2002 og leggur hún til ýmsar breytingar á hegningarlögunum er varða klám."
"(Nefndin) telur að endurskoða beri 210. gr. laganna í heild sinni. Við þá endurskoðun leggur nefndin til að banni við dreifingu og birtingu á ákveðinni tegund af klámi verði aflétt. Í því skyni verði tekin upp ákveðin flokkun á klámi sem skipti því niður í gróft klám og klám af vægara tagi. Til grófs kláms teljist þá barnaklám, dýraklám og ofbeldisfullt klám. Til kláms af vægara tagi teljist þá klám sem ekki getur flokkast undir gróft klám."
Til að gæta fyllstu meðvirkni langar mig að flytja gamanmál í lokin til að fólk haldi ekki að lífið sé ein stór áhyggja:
Virðulegur maður kemur inn á barinn á Sögu og pantar 4 glös af XO koníaki. Þjóninn afgreiðir manninn strax og raðar glösunum snyrtilega á barborðið. Maðurinn sturtar í sig úr hverju glasinu á eftir öðru og er búinn með alla sjússana áður en 5 mínútur eru liðnar. Þjóninn segir í spurnartóni: "Það er eins og þér liggi á". "Þér myndi líka liggja á ef þú værir með það sama og ég", sagði maðurinn. "Hvað ertu eiginlega með?" spurði þjóninn í samúðartón. "Bara fimmtíu kall".
15.3.2007 | 11:41
Um K.L.Á.M. og svanakonu
Klámmálið fyrst:
Ólafur frændi minn fór á fund lögreglunnar s.l. mánudag þar sem honum var tjáð að málið væri í rannsókn. Ég hringdi í lögregluna til að spyrjast fyrir um hver stjórnaði rannsókninni og hvernig henni væri háttað og hvenær niðurstöðu væri að vænta. Ég fékk þau svör að málið væri ekki í rannsókn hjá þeim heldur lægi það á borði hjá sýslumanni. Ég hringdi í sýslumannsembættið á Akureyri og náði þar tali af Eyþóri nokkrum sem sagðist vera maðurinn sem sæji um að taka ákvörðun um hvort gripið yrði til aðgerða. Við töluðum saman í góða stund og að lokum sagði hann mér að hann hygðist vísa málinu frá á þeim grundvelli að hann skilgreindi það sem sýnt væri í B&B ekki sem klám því þarna væru, eða virtust vera, lögráða einstaklingar að gera þetta af fúsum og frjálsum vilja. Í rauninni má þá segja að hann sé að vísa þessu máli frá vegna þess að ekki er um barnaklám að ræða, þar sem eina ástæðan fyrir því að taka málið ekki upp, er að þeir sem taka þátt í athæfinu eru ekki, eða virðast ekki vera, undir lögaldri.
Málið strandar sem sagt opinberlega á þessu: Hvað er klám?
Við ætlum hinsvegar ekki að stranda á þessum stað, heldur siglum ótrauð áfram. Meiri fréttir síðar.
Svo svanakonan:
Hún er mjög fyndin!
Sænska svanakonan stöðvuð á götu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.3.2007 | 14:18
Í okkar nafni
10.3.2007 | 09:57
Dagur vonar
Bush og Lula da Silva kynna samkomulag um þróun á umhverfisvænu eldsneyti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.3.2007 | 17:01
K.L.Á.M.
Eftir stóra klámráðstefnumálið ákváðum frændi minn Ólafur Eiríkur og ég að skoða lagalega stöðu kláms hér á landi og eftir að hafa lesið 210. gr. Almennra hegningarlaga ákváðum við að leita svara við því hvers vegna þessum lögum væri ekki framfylgt hér á landi. Ég sendi Ríkislögreglustjóra tölvupóst og samskiptin voru á þessa leið:
Sunnudagur 4. mars 2007
Góðan og blessaðan daginn.
Ég heiti Vilborg Ólafsdóttir og ég hef eina spurningu sem varðar 210. gr. almennra hegningarlaga. Greinin lítur svona út:
"Ef klám birtist á prenti, skal sá, sem ábyrgð ber á birtingu þess eftir prentlögum, sæta sektum 1) eða fangelsi allt að 6 mánuðum.
Sömu refsingu varðar það að búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt út klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum, eða hafa þá opinberlega til sýnis, svo og að efna til opinbers fyrirlestrar, eða leiks, sem er ósiðlegur á sama hátt."
Nú eru klámtímarit eins og B&B gefin út hér á landi og seld víða, svo ég taki aðeins eitt dæmi af öllu því klámi sem gengur kaupum og sölum á Íslandi.
Eftir því sem mér skilst best er það embætti ríkislögreglustjóra sem sér um að framfylgja lögum sem þessum. Fyrirspurn mín hljóðar því svona:
Af hverju er þessum lögum ekki framfylgt?
Ég æski svars.
Með ósk um góðan dag,
Vilborg Ólafsdóttir
kt. 190782-5229
s. 849-7988
Þriðjudagur 6. mars 2007
--- Páll Winkel <pw@rls.is> schrieb:
> Sæl Vilborg
> Haraldur hefur falið mér að svara erindi þínu. Áður
> en lengra er haldið bið ég þig um að upplýsa það
> hvaðan sú vitneskja sé komin að ríkislögreglustjóri
> framfylgi 210. gr. almennra hegningarlaga svo unnt
> sé að veita þér viðeigandi leiðbeiningar samkvæmt
> stjórnsýslulögum.
>
> Með kveðju,
>
> Páll E.
Þriðjudagur 6. mars 2007
Sæll og blessaður Páll.
Samkvæmt 5.gr. Lögreglulaga, lið a), ber Ríkislögreglustjóra, sem er sá aðili sem fer með málefni lögreglunnar í umboði æðsta yfirmanns lögreglunnar í landinu, eða dómsmálaráðherra, að:
"flytja og kynna lögreglustjórum boð og ákvarðanir æðstu handhafa ríkisvaldsins sem snerta starfsemi lögreglunnar með einum eða öðrum hætti og vinna að og fylgjast með að þeim ákvörðunum verði fylgt í starfsemi lögreglunnar,.."
Samvkæmt 2.gr. Lögreglulaga, lið c) ber lögreglunni að:
"vinna að uppljóstran brota, stöðva ólögmæta háttsemi og fylgja málum eftir í samræmi við það sem mælt er fyrir um í lögum um meðferð opinberra mála eða öðrum lögum,.."
Vitneskja mín er því meira í ætt við eðlilega ályktun, en mér þótti réttast að beina erindi mínu til æðstu yfirvalda lögreglunnar í landinu. Vænt þætti mér um, ef þér er ófært að svara spurningu minni, að þú segðir mér hver ber ábyrgð á því að lögum sem þessum sé framfylgt svo ég geti beint spurningu minni þangað.
Með þökk fyrir skjót viðbrögð,
Vilborg Ólafsdóttir
kt. 190782-5229
s. 849-7988
Enn hef ég ekki fengið frekari svör frá Páli E. Winkel né öðrum frá embættinu.
Ólafur fór aðra leið að málinu og hérna birti ég sögu hans í bréfi sem hann sendi til fjölmiðla eftir að hafa komið víða við í leit sinni að sannleikanum:
Akureyri, 8. mars 2007Til þeirra sem málið varðar: Ég heiti Ólafur og er búsettur á Akureyri um þessar mundir. Eftir að hafa fylgst lítillega með umræðunni um klámráðstefnuna, sem til stóð að halda hér á landi, fór ég að velta því fyrir mér hver lagaleg staða kláms væri hér á landi. Í 210.gr. Almennra hegningarlaga segir að það sé ólöglegt með öllu, sama í hvaða formi það er; hvort sem að um er að ræða á prenti eða myndskeiðsupptökur. Þar segir að ólöglegt sé að flytja til landsins klám, eða framleiða það hér á landi.
Eftir að ég komst að þessu fór ég að velta því fyrir mér, þar sem að ég er ekki lögfróður heldur aðeins forvitin maður, hvort það væri hægt að fá einhverja undanþágu frá þessum lögum, þar sem að klám er vissulega til sölu á nánast hvaða bensínstöð, matvöruverslun, eða bókabúð hér á landi.
Ég fór af stað og keyrði hér einn hring á Akureyri, talaði við starfsfólk í verslunum þar sem þetta efni er til sölu og spurði hvort að einhverjar undanþágur fyrir dreifingunni hefðu verið fengnar frá sýslumanni. Það kannaðist enginn við það. Því næst ákvað ég að sækja um undanþágu frá lögunum hjá sýslumanni. Þar var tekið vel á móti mér og mér tilkynnt að það væri ekki hægt að fá nokkra undanþágu frá þessum lögum og að klám væri með öllu ólöglegt á Íslandi, það stæði skýrum stöfum í lögunum. Þá spurði ég viðkomandi (ónafngreindan starfsmann hjá sýslumannsembættinu) af hverju það væri þá verið að selja þetta útum allt hérna á Akureyri. Ég fékk það svar að erfitt væri að skilgreina hvað klám væri í raun og veru og þar af leiðandi erfitt að segja hverjir væru brotlegir og hverjir ekki.
Samræðurnar leiddu í ljós þá sannfæringu starfsmannsins að klám væri eitthvað kynferðislegs eðlis sem misbyði siðferðiskennd einhvers. Ekki gat hann þó svarað mér því; hver sá sem misboðið væri þyrfti að vera til að gripi yrði til aðgera. Eftir þessar samræður komst ég að þeirri niðurstöðu að 210. gr. Almennra hegningarlaga tekur til hluta sem enn hafa ekki verið skilgreindir og þess vegna er ekki hægt að bregðast við þeim. Hver sem er getur skilgreint klám fyrir sig og með því að víkka út persónulegar skilgreiningar má komast upp með að selja ýmislegt, sem að mínu mati og annarra getur í besta falli talist óhæfa og í versta falli ofbeldi.
Með þessa vitneskju í farteskinu fór ég af stað og keypti Bleikt og Blátt í Nettó, þar sem ég skilgreini sjálfur efni tímaritsins sem klám. Þetta fór ég með upp á lögreglustöð með orð hins opinbera starfsmanns hjá sýslumannsembættinu og 210. gr. Almennra hegningarlaga í höfðinu á mér og tilkynnti glæp. Ég hefði í höndunum ólöglegan varning sem bæði hefði verið framleiddur ólöglega og seldur ólöglega hér á landi, samkvæmt landsins lögum.
Þar sem það er í hluta lögreglunnar að halda uppi lögum og reglu hér í landinu hélt ég að þeir færu strax af stað og tækju á málinu, en reyndin varð önnur. Það kom á þá fát og nú er verið að hugsa um hvort það eigi að gera eitthvað í málinu yfir höfuð. Ég vil árétta að málið snýst ekki um hvort klám ætti að vera löglegt hér á landi eða ekki. Málið snýst um að allir þegnar landsins og lögreglan fari eftir gildandi lögum, ellegar verði þeim breytt til samræmis við það sem lýðurinn vill. Mér er ekki vel við að sett séu merkingarlaus lög hér á landi sem að ekki er hægt að framfylgja.
Virðingarfyllst,Ólafur Eiríkur Þórðarson
Í morgun birtist fréttatilkynning á forsíðu Fréttablaðsins um málið. Á mánudaginn fæst úr því skorið hvort lögreglan á Akureyri aðhafist eitthvað í málinu.
Nú er bara að bíða og sjá..
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.3.2007 | 11:39
Viva la feminismus!
Karlar eru frá mars og konur frá Venus er að mínu mati ein best skrifaða afsökun fyrir leti vegna kynferðis sem um getur í sögu mannkyns. Karlmenn kunna bara ekkert að strauja. Karlmenn geta bara hugsað eitt í einu. Karlmenn kunna ekki á þvottavélar. Karlmenn eru betri í raungreinum en konur. Konur hugsa með vinstra heilahveli. Þær eiga erfiðara með að læra muninn á hægri og vinstri. Þær geta hugsað um marga hluti í einu. Grundvallar sjónarmið bókarinnar er að karlar og konur séu gjörólík að eðlisfari. Okkur sauðsvörtum almúganum hættir til að slá fullyrðingum úr bókinni fram sem heilögum, óbreytanlegum staðreyndum án þess að efast um sannleiksgildi þeirra. Það þykir mér sorglegt.
Á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar fóru femínistar að efast hátt og opinberlega um eðlismun á kynjunum og héldu því fram að einungis væru um menningar- og félagsbundna kynjamótun að ræða (Þorgerður Þorvaldsdóttir, 2000). Á sama tíma fóru akademískir rannsakendur að beina sjónum sínum að "eðlislægum" mun á milli kynjanna. Þeir rannsökuðu til dæmis færni fólks til að hugsa og sinna hinum ýmsu verkum og komust að því að einhver munur virtist vera á hæfni fólks eftir því hvort manneskjan var kona eða karl. Karlar kunnu í alvörunni minna á þvottavélar en konur. Karlar voru í alvörunni færari í raungreinum en konur á meðan þær áttu auðveldara með að læra tungumál og listgreinar. Karlar virtust eiga betra með að einbeita sér að einu verkefni í einu á meðan konum var í lófa lagt að sinna mörgum hlutum í einu. Rót þessa mismunar var talin liggja í mismunandi heilastarfsemi. Karlar voru sagðir nota hægra heilahvelið meira og konur hið vinstra. Síðan þá hefur þessi fróðleikur verið notaður óspart til að afsaka lélega færni fólks á einstökum sviðum. Karlar fría sig ábyrgð á heimilishaldi og nota niðurstöður heilarannsóknanna sem afsökun. Konur veigra sér við því að sinna störfum sem krefjast rökhugsunar og vöðvamassa og bera fyrir sig listrænu "eðli" og veikri vöðvabyggingu.
Reglulega eru svo gerðar nýjar rannsóknir sem staðfesta þennan mun. En ástæðan fyrir því að niðurstöðurnar hafa verið þær sömu síðan á sjöunda áratugnum er sú að við róum að því öllum árum að viðhalda þessu ástandi. Frá unga aldri þjálfum við okkur markvisst í því að nota aðeins þann hluta heilans sem okkur hefur verið sagt að sé meira notaður af okkar kyni. Við tökum þessum fullyrðingum sem heilögum, óbreytanlegum sannleika og okkur dettur ekki í hug að reyna að ala börnin okkar upp utan ramma hefðbundinna kynjahlutverka. Nánast á hverjum degi lesum við um það í öllum helstu fjölmiðlum að hin eða þessi rannsóknin hafi verið gerð sem staðfestir enn það sem við vissum alltaf; að karlar geti hvorki straujað né sett í þvottavél og það hafi eitthvað með það að gera að þeir geti ekki hugsað nema einn hlut í einu. Þetta gerir þeim líka illmögulegt að sjá um ungabörn og halda heimili því slíkt krefst þess að huga þarf að mörgum litlum hlutum í einu. Neðst í sömu grein má venjulega lesa um að enn og aftur hafi verið sýnt fram á að konur eigi erfiðara en karlar með að þekkja muninn á hægri og vinstri og þetta sé líklega skýringin á því af hverju flestir stjórnendur heimsins séu karlmenn; þeir eigi betur með að rata í rétta flokka og vísa heiminum leiðina til glötunar.
Eitt virðist gleymast við gerð og gagnrýni á þessum kynjarannsóknum. Munurinn á heilastarfsemi fólks er mikill milli einstaklinga og það gleymist oft að taka þá staðreynd með í reikninginn þegar vitnað er í þessar rannsóknir að yfirleitt er meiri munur innan hvors hóps um sig en á milli kynjanna tveggja (Heiða María Sigurðardóttir 2005).
Þegar gagnkynhneigt fólk stofnar til ástarsambands er eins og það geri með sér ómeðvitaðan samning um að hitt kynið hugsi um það sem manns eigin kyni hafi ekki "verið áskapað" að hugsa um. Karlarnir gera við bílana, skipta um ljósaperur og bora göt í veggi á meðan konurnar vaska upp, þvo þvott og baða börnin (áður en lesandi stoppar hér til að andmæla þessari fullyrðingu og segja að verkaskipting á heimilum sé allt önnur en hún var einu sinni, langar mig að biðja hann/hana um að gera stutta könnun á því í huganum hver sér um að þvo þvottinn á heimili para í nánasta umhverfi hans/hennar, og af hverju?).
Það er samt ekki bara verkaskipting á heimilunum sem verður fyrir barðinu á fúsleika okkar til að trúa öllu því sem okkur er sagt heldur gerir þetta það að verkum að samfélagsgerðin helst óbreytt. Vert er að geta þess að eitt megin einkenni samfélagsgerðar vestræna heimsins er, og hefur verið frá því í Grikklandi til forna, að nánast einungis karlar sitja við stjórnvölinn. Sú staðreynd er ekki eins slæm og hin að mannkynið stendur enn í þeirri trú að karlar og konur séu ófullkomin sitt í hvoru lagi og staðfestir það með því að styðja sig við hitt kynið í svokölluðum ástar-samböndum.
Annað hvort þarf fólk að fara að hafa meiri trú á sjálfu sér eða stjórnendur heimsins þurfa að vera að helmingi til konur. Þangað til það gerist er heiminum stjórnað af einu heilahveli. Við hljótum að geta gert betur en það.
Heimildir:
Heiða María Sigurðardóttir. "Hver er munurinn á heila karla og kvenna?". Vísindavefurinn 29.11.2005. http://visindavefur.hi.is/?id=5442. (Skoðað 08.3.2007).
Þorgerður Þorvaldsdóttir. "Er í alvöru til eitthvað sem heitir eðli, hjá mannfólkinu og sem munur á milli kynjanna?" Vísindavefurinn 3. 11. 2000. http://visindavefur.hi.is/?id=1084. (Skoðað 08.3.2007).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)